(Næstum því) Allt um Kristjönu
Kristjana Friðbjörnsdóttir er fædd í Reykjavík þann 11. janúar árið 1976. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1996 og B.Ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999.
Hún er grunnskólakennari og kenndi í grunnskólum um árabil en starfar nú sem rithöfundur og námsefnishöfundur.
Kristjana býr í Reykjavík ásamt karli sínum, tveimur táningspeyjum, lötum hundum og krefjandi köttum. Hún leitar logandi ljósi að viðurkenndu áhugamáli en elskar bækur og horfir ákaflega mikið á kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Er einlægur Harry Potter aðdáandi, krimmafíkill og sagnfræðinörd.
Rithöfundurinn
Fyrsta bókin kom út árið 2007 en þar steig einkaspæjarinn Fjóli Fífils fram á sjónarsviðið og leysti gátuna um Skuggaúrið. Fleiri bækur um spæjarann fylgdu á eftir; Fjóli Fífils – Lausnargjaldið og Fjóli Fífils – Sverð Napóleons.
Árið 2010 sendi Kristjana frá sér bókina Flateyjarbréfin, fyrstu bókina í bókaflokki um stelpuskottið Ólafíu Arndísi.
Dagbók Ólafíu Arndísar, Reisubók Ólafíu Arndísar og Lífsreglur Ólafíu Arndísar fylgdu í kjölfarið.
Tvíburarnir Freyja og Fróði, leikskólakrakkar með meiru urðu svo til í ársbyrjun 2015 þar sem þau leiddu lesendur í allan sannleikann um sundferðir og tannlæknastofur.
Kristjana situr sjaldan auðum höndum og fær stundum aðeins of margar hugmyndir að sögum eða sögupersónum. Hún hefur sérstaklega gaman af að búa til bullnöfn, skráir allar hugmyndir í minnisbækur og hlær stundum upphátt að því sem hún hefur sjálf skrifað.
Námsefnishöfundurinn
Kristjana ákvað að verða kennari þegar hún var sjö ára. Um það leyti hófst farsæll ferill hennar í námsefnisgerð þegar hún bjó til verkefni og leiðbeiningar fyrir bróður sinn og aðra óheppna vini er neyddust til að taka þátt í uppáhaldsleik Kristjönu, Skólaleiknum.
Þessi þjálfun átti eftir að skila sér því nú semur hún og hannar margvíslegt námsefni fyrir námsefnisvefinn 123skóli.is.
Auk þess hefur hún unnið alls konar verk fyrir Menntamálastofnun; léttlestrarbækur, lesskilningsverkefni og kennslubækur um íslenska tungu.
Verðlaun og viðurkenningar
-
2014 Heiðurlisti Alþjóðlegu IBBY samtakanna: Reisubók Ólafíu Arndísar
-
2013 Vorvindar IBBY á Íslandi
Viðurkenning f. framlag til barnamenningar.
-
2011 Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar
fyrir Flateyjarbréfin.