top of page

Ólafía Arndís

Ég er Ólafía Arndís,
þrettán ára ritsnillingur.

Allir ættu að lesa þennan sögupóst því hann er bæði fyndinn, spennandi og leiðinlegur. (Því mér leiddist stundum.)
Góða skemmtun og það er bannað að hætta fyrr en reisubókin er búin!"
ÓAJ

MYNDIR: Margrét Laxness

 

Flateyjarbréfin: Skólinn er búinn og allir fegnir að komast í frí. Allir nema Ólafía Arndís. Hvað ef hún kemst nú ekki upp í sjötta bekk næsta vetur eins og Arnfríður kennari sagði? En stelpa deyr ekki ráðalaus. Þótt fjölskyldan verji sumrinu á eyju lengst úti á Breiðafirði tekur hún málin í sínar hendur og byrjar að skrifa kennaranum sínum. Bréfin fjalla um flest annað en námið enda er Ólafía Arndís önnum kafin við að berjast við kríur, passa ólatabelg, eltast við drauga og eignast nýja vini. Flatey reynist vera sannkölluð ævintýraeyja!

 

Margrét E. Laxness myndskreytti.

 

Kríur eru klikkaðir fuglar. Þær létu ekki bara nægja að garga á okkur heldur stungu sér niður á víxl og reyndu að ráðast á okkur með flugbeittum goggum. Ég dró Kristján til mín og skýldi honum en fékk í staðinn kríugogg í höfuðið. Þvílíkur sársauki. En þá gerðist svolítið óvænt. Í gegnum kríugargið heyrði ég allt í einu öskur og svo vissi ég ekki fyrr til en að strákur (eiginlega unglingur) kemur hlaupandi að okkur með rekaviðarbút í hendi og veifar honum fyrir ofan höfuðið á sér eins og óður maður. Hann greip Kristján í fangið og sagði mér að fylgja sér, sem ég og gerði með Róbert undir hendinni."

 

 

Dagbók Ólafíu Arndísar: Ólafía Arndís er með eindæmum óheppin með foreldra! Eftir að hafa pínt hana til að verja heilu sumri í Flatey ákveða þau (næstum) fyrirvaralaust að keyra yfir hálft landið og setjast að á Dalvík. Þá er eins gott að Ólafía er byrjuð að skrifa dagbók sem hún getur treyst fyrir vandræðum sínum og háleynilegum áformum um flótta.

 

Margrét E. Laxness myndskreytti.

 

„Matthildur er æði. Hún er jafngömul og við Anton Ísberg. Mér brá svolítið þegar ég hitti hana fyrst. Hún er sko í hjólastól. Hún lenti ekkert í slysi eða svoleiðis. Hún fæddist bara lömuð. Ég hef aldrei áður þekkt neinn í hjólastól. Ég spurði hana hvernig hún kæmist á klósettið. Anton Ísberg sagði að ég væri dóni en Matthildur hló bara og útskýrði fyrir mér að hún þyrfti aðstoð við það eins og ótrúlega margt annað. Hún þarf til dæmis aðstoð við að klæða sig, fara í sturtu, leggjast í rúmið og svoleiðis. Vá, hvað hún hlýtur að vera þolinmóð!"

 

 

Reisubók Ólafíu Arndísar: Tveimur dögum eftir að skóla lýkur birtist amma Ólafíu Arndísar og býður henni með sér í ferðalag. Hún ætlar að þvælast um á ævafornum húsbíl og heimsækja gamla vini. Ólafíu líst hálfilla á blikuna en af því að hún fær glænýja spjaldtölvu til að skrá ferðasöguna á ákveður hún að slá til. Hér er reisubókin komin út … en þó ekki eins og amman sá hana fyrir sér!

 

Margrét E. Laxness myndskreytti.

 

„Amma ræsti bílinn og þeytti bílflautuna og um leið og ég prílaði upp í framsætið kallaði hún út um bílstjóragluggann: Sjáumst í ágústlok, elskurnar!!!

Ágústlok!!! Ertu að skilja þetta, Anton Ísberg? Hvað er ég búin að koma mér í. Ég er föst hér næstu vikurnar í þessum gamla, ljóta húsbíl sem kemst bara upp í 40 km hraða með Hrönn Gyðu sem er eins og strangur herforingi. Og ég veit ekki einu sinni hvert við erum að fara!" 

 

 

Lífsreglur Ólafíu Arndísar: Ólafía Arndís er byrjuð að blogga. þar segir hún frá öllu því ótrúlega sem á daga hennar drífur, furðulega fólkinu sem verður á vegi hennar (þó að hún móðgi kannski suma) og síðast en ekki síst alls konar einkennilegum lífsreglum sem erfitt getur reynst að lifa eftir.

 

Margrét E. Laxness myndskreytti.

 

„Þegar hópurinn stóð ferðbúinn fyrir utan Jörð kom Albína með fangið fullt af gulum böndum. Mér datt strax í hug að við ættum að byrja á einhvers konar leik, sem hefði verið nógu ömurlegt en nei, Albínu tókst að toppa það. Böndin voru hugsuð til að binda saman fjölskyldumeðlimi. Já einmitt ... binda þá saman hönd í hönd og fót í fót. Ég átti að ganga á fjall sem kallað var fell bundin við mömmu mína, sem hafði aldrei farið í fjallgöngu á ævi sinni."

Barnabókaverðlaun
Menntaráðs Reykavíkur
2011

 

Heiðurslisti alþjóðlegu
IBBY samtakanna
2014

 

bottom of page